Í Borgaskóla er unnið eftir hugmyndakerfi þar sem lögð er áhersla á sjálfsskoðun, uppbyggileg samskipti, kennslu sjálfsaga og sjálfsstjórn í samskiptum. Kerfi þetta nefnist Uppeldi til ábyrgðar og er í anda uppbyggingarstefnunnar. Rauði þráðurinn er að kenna börnum og ungmennum að beita sig sjálfsaga í samskiptum við aðra. Þeim er kennd sjálfstjórn og sjálfsagi með því að efla þeirra innri sálarstyrk. Áhersla er lögð á lýðræðisleg samskipti og býður hugmyndafræðin starfsfólki upp á skýrar vinnuaðferðir og leiðir í vinnu með aga.
Unnið er út frá fimm grunnþörfum einstaklingsins og eru þær; öryggi, umhyggja, áhrif, frelsi og gleði. Með þessum starfsháttum er lagður grunnur að forvarnaráætlun Borgaskóla, þar sem reynt er eftir fremsta megni að leiðbeina nemendum um uppbyggileg samskipti í virku skólasamfélagi.
Í nánu samstarfi við foreldra náum við svo enn betri árangri í því að útrýma einelti í Borgaskóla.
Einstaklingur er lagður í einelti ef hann verður fyrir endurteknum neikvæðum samskiptum frá einum eða fleiri einstaklingum. Einelti er ofbeldi og félagsleg útilokun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þolandann. Sá sem verður fyrir einelti getur fyllst ótta og uppgjöf og er ekki fær um að verja sig eða þola álagið. Stríðni, átök og einstakur ágreiningur milli jafningja telst ekki til eineltis. Þegar vitneskja berst um einelti til skólans frá nemanda, forráðamönnum eða starfsfólki skólans, er henni komið til umsjónarkennara. Hann ákveður næstu skref eftir eðli málsins og kallar til samstarfs við sig þá aðila sem þurfa þykir.
Rammi forvarnaráætlunar gegn einelti í Borgaskóla er byggð á Olweusaráætluninni sem Borgaskóli starfar eftir. Markmið hennar er að koma í veg fyrir einelti og aðra andfélagslega hegðun. Einnig á hún að skapa skólabrag þar sem allir geta notið sín í leik og starfi. Reglulega er fylgst með líðan nemenda m.a. með könnunum. Niðurstöður þeirra hafa gefið starfsfólki Borgaskóla skýra mynd af stöðu eineltismála í skólanum. Eftirlitskerfi skólans, s.s. í frímínútum, á göngum og í baðklefum er endurskoðað reglulega, bekkjarfundir nemenda eru a.m.k. tvisvar sinnum í mánuði þar sem nemendum gefst kostur á að ræða um sín málefni.
Það sem við getum öll gert:
Taka einelti alvarlega og koma í veg fyrir að það eigi sér stað.
Afla góðra upplýsinga þegar við verðum vör við einelti.
Hvetja börnin til að segja frá einelti og styðja við bakið á þeim.
Hjálpa sérhverju barni sem verður fyrir einelti.
Aðstoða börn sem leggja önnur börn í einelti, við að breyta hátterni sínu.
Gera börnunum grein fyrir að einelti í skóla hefur áhrif á kennslu og nám allra nemenda í bekknum þar sem einelti viðgengst.
Upplýsa börn og fullorðna um að einelti skekkir sjálfsmynd og skerðir sjálfstraust barna, sem fyrir því verða.
Verkferill í eineltismálum í Borgaskóla
Þegar grunur vaknar um einelti er fyrsta skref að tilkynna það til umsjónarkennara. Umsjónarkennari fyllir út stigskipt skráningareyðublað og hefur athugun á málinu. Umsjónarkennari:
ræðir við þolanda/þolendur
ræðir við meintan geranda/gerendur
leitar upplýsinga hjá starfsfólki skólans
leitar upplýsinga hjá öðrum nemendum
ræðir við foreldra þolanda/þolenda
ræðir við foreldra meints geranda/gerenda.
Ef athugun þessi leiðir í ljós að ekki er um einelti að ræði er þó áfram unnið með samskipti í viðkomandi bekkjum, m.a. með því að halda bekkjarfundi. Ef athugun þessi leiðir í ljós að um einelti er að ræða heldur umsjónarkennari áfram að vinna í málinu.
Umsjónarkennari:
tekur einstaklingsviðtöl með þolanda/þolendum (ásamt öðrum starfsmanni, helst námsráðgjafa)
tekur einstaklingsviðtöl með geranda/gerendum (ásamt öðrum starfsmanni, helst námsráðgjafa)
ákveður næstu skref með foreldrum
heldur bekkjarfundi um einelti og samskipti
framkvæmir tengslakönnun í viðkomandi bekk/bekkjum
fundar reglulega með öllum sem að málinu koma (nemendum og foreldrum)
Ef eineltið hættir ekki er málinu vísað til nemendaverndarráðs. Þar eiga sæti skólastjóri, félagsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur, kennsluráðgjafi og skólasálfræðingur.