Kennsluhættir
Í Borgaskóla er lærdómssamfélag þar sem nemendur, foreldrar og starfsfólk eru virkir þátttakendur. Nemendur fá tækifæri til að njóta hæfileika sinna og rækta heilbrigðan lífsstíl og samskipti í hvetjandi og jákvæðu námsumhverfi.
Hlutverk Borgaskóla er að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi nám sem stuðlar að alhliða þroska nemenda. Með það að markmiði að þeir verði sjálfstæðir og skapandi einstaklingar, virkir og ábyrgir í síbreytilegu samfélagi. Gengið er út frá kenningum Howard Gardner sem leggja áherslu á mismunandi hæfni nemenda. Fjölbreytileika einstaklinganna er hampað og viðurkennt að nemendur búa yfir margvíslegri færni og geta haft mismunandi bakgrunn. Einnig er gengið út frá hugsmíðahyggjunni og því er lögð áhersla á að byggja á fyrri þekkingu nemandans og gera hann virkan þátttakanda í eigin námi.
Unnið er samkvæmt stefnu fræðsluyfirvalda um skóla án aðgreiningar.
Lögð er áhersla á
leiðsagnarnám
teymiskennslu
einstaklings/hópamiðað nám. Þegar nám er einstaklingsmiðað er hverjum og einum nemanda mætt þar sem hann er staddur í námi og þess er vænst að nemendur leggi það af mörkum sem þeir geta í námi sínu
fjölbreyttar kennsluaðferðir
sjálfstæð vinnubrögð, sköpun og frumkvæði
umhverfismennt.
Mikil áhersla er á samvinnu kennara og teymisvinnu þannig að kennarar beri sameiginlega ábyrgð á kennslu bekkja og árganga. Með samvinnu gefst kennurum kostur á að njóta sín betur í starfi. Þeir geta samnýtt mismunandi hæfni og þekkingu. Þannig gefst kennurum kostur á að leysa hin ýmsu mál sem upp koma sameiginlega og sjá með því móti fleiri lausnir. Einnig gefst þeim tækifæri til að vinna markvisst saman að skólaþróun. Kennarar vinna saman að því að skipuleggja hvetjandi námsumhverfi og aðstæður.
Borgaskóli leggur einnig áherslu á heilbrigðan lífsstíl og útiveru. Útikennsla á að vera samofin skólastarfinu. Nemendur fara ásamt kennurum, í lengri og styttri vettvangsferðir sem tengjast ýmsum námsgreinum og falla undir markmið aðalnámskrár grunnskóla.