Tölum við börn um klám

Forvitni barna og unglinga um kynlíf er heilbrigð og eðlileg. En klámneysla er hins vegar ógn við kynheilbrigði ungs fólks. Að leita í klám til að svala forvitni og áhuga um kynlíf er skiljanlegt, sem og að slysast óvart inn á slíkt efni í stafrænni veröld nútímans.  Það sýnir þó ekki raunveruleikann heldur getur þvert á móti stuðlað að ranghugmyndum um kynlíf og samskipti.

Þessi veruleiki krefur foreldra um að leggja snemma góðan grunn að gagnlegri kynfræðslu, og í netvæddu nútímasamfélagi er nauðsynlegt að flétta saman kynfræðslu og klámfræðslu. Vegna umfangs og aðgengis kláms er mikilvægt að foreldrar fræði börnin sín um skaðsemi þess, og reyni að koma í veg fyrir eða bregðast við klámáhorfi þeirra.

Hvert ungmenni ætti að búa við frelsi til að upplifa sig sem kynveru, óháð viðmiðum klámefnis sem framleitt er sem söluvara en ekki kynfræðsla. Klámframleiðendur eiga ekki að hafa það vald að kenna krökkum til hvers er ætlast af þeim sem kynverur.

Öll eigum við skilið að nálgast kynlíf á jákvæðan, skemmtilegan og öruggan hátt á okkar eigin forsendum. Að fikra sig áfram í rólegheitum er mikilvægur hluti þess að þróast sem kynvera. En með hinu galopna aðgengi að grófu klámi má segja að mörgum ungmennum hafi verið harkalega skellt upp á mótorhjól þegar kemur að kynlífi, en misst af bæði þríhjólinu og reiðhjólinu í byrjun. Til að styðja sem best við kynheilbrigði þarf að búa til styðjandi og öruggt umhverfi þar sem unga fólkið getur leitað upplýsinga, spurt spurninga og fengið í hendur tæki og tól sem nýtast út í lífið.

Textinn hér að ofan er tekinn af heimasíðu Stígamóta og hér er hægt að nálgast leiðbeiningar um klámspjall við börn.