Dagur íslenskrar náttúru

Dagur íslenskrar náttúru var fimmtudaginn 16.september og í tilefni þess fóru nemendur út um hvippinn og hvappinn.
Nemendur í 5.bekk gengu á Úlfarsfell, 6.bekkur var í ratleik í kringum skólann, 7.bekkur fór víða um hverfin hér í norðanverðum Grafarvogi og svona má lengi telja.
Nemendur í 2.bekk færðu skólastofuna niður í fjöru þar sem þeir eru þessa dagana að læra um hafið og því fróðlegt að skoða hverju sjórinn hefur skolað á land. Nöfnin á hópaskiptingu í 2.bekk tengjast einmitt allar hafinu. Má þar nefna: kuðunga, kræklinga, seli og sæljón. Áður en haldið var af stað höfðu nemendur hlýtt á þjóðsöguna Selhamurinn. Því miður sáum við ekki seli í þessari ferð en nemendur fundu ógrynni af kuðungum, kúskeljum og bláskeljum sem innihalda kræklinga. Allir voru áhugasamir og var ferðin lærdómsrík og skemmtileg.

Nemendur í 3.bekk fóru í náttúrubingo í nærumhverfi skólans. Þar sem finna átti 15 mismunandi hluti eins og orm, fugl, köngul, 3 mismunandi steina, blóm ofl. Það gekk mjög vel og unnu börnin saman í pörum. Eftir nesti var farið  í náttúruskoðun þar sem markmiðið var að skima eftir hrafninum, þar sem að hann er einmitt þema hjá 3.bekk þessar vikurnar. Því miður hvorki sást né heyrðist í krumma þrátt fyrir tilraunir til að lokka hann til hópsins með söng. Nemendur reyndu bæði „Krummi krunkar úti“ og „Krummi svaf í klettagjá“. En börnin létu það nú ekki á sig fá og þess í stað var farið að skoða gróður, ber og sveppi.  Margt áhugavert fannst og var það auðvitað myndað í bak og fyrir. Þegar inn var komið teiknuðu nemendur í þemabókina sína og skrifuðu hvað þeir höfðu fundið.