Íslenskuverðlaun unga fólks í bókmenntaborginni Reykjavík

Íslenskuverðlaun unga fólksins voru veitt í dag, á degi íslenskrar. Verðlaunin, sem nú voru afhent í fjórtánda sinn, eru veitt þeim nemendum sem hafa sýnt færni, frumleika að sköpunargleði við að tjá sig á íslensku í ræðu og/eða riti, þeim sem hafa sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar og þeim sem hafa tekið miklum framförum í íslensku. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga ungs fólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs. Verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Venjan er að verðlaunahafar fái afhent verðlaun við hátíðlega athöfn í Hörpu en vegna samkomutakmarkana voru verðlaunin veitt í hverjum skóla fyrir sig. Myndaband sem spilað var við athöfnina má sjá hér neðar. Í Borgaskóla fengu tveir nemendur íslenskuverðlaunin, þeir Haukur Leó Kristínarson í 3. bekk og Tómas Aris Dimitropoulos í 7. bekk.

Í umsögn um Hauk Leó segir:

„Haukur Leó hefur mikinn áhuga á lestri og hefur ríkan orðaforða. Hann les fræðibækur jafnt sem skáldsögur (t.d. Harry Potter) og annað sem vekur áhuga hans.  Hann á mjög auðvelt með að semja texta frá eigin brjósti sem og að leysa verkefni á frumlegan hátt. Hann hefur einstaklega gott vald á íslenskri tungu, jafnt rituðu sem töluðu máli. Haukur Leó er jákvæður leiðtogi í námi jafnaldra“.

Í umsögn um Tómas Aris segir:

„Tómas Aris er tvítyngdur og hefur framúrskarandi vald á íslensku. Hann er sérstaklega áhugasamur um lestur og er tíður gestur á bókasafni skólans. Hann hefur ríkulegan orðaforða og sýnir mikla leikni í því að nota tungumálið. Hann er skapandi í hugsun og nýtir færni sína vel í samskiptum og rituðu máli.“

Við erum mjög stolt af verðlaunahöfunum okkar og óskum þeim og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju.